Max Verstappen sagði árangurinn í tímatökunni í Melbourne hafa komið sér í opna skjöldu. Hafnaði hann í fimmta sæti og hefur aldrei áður verið jafn framarlega á rásmarkinu.
Verstappen sagðist hafa átt í mestu erfiðleikum með að hemja bíl sinn á þriðju æfingunni og þeirri síðustu. Í tímatökunni hafi hann verið öllu meðfærilegri og þakkaði það yfirferð tæknimanna sinna og breytinga á uppsetningu.
„Tímatakan var góð, okkur tókst að bæta bílinn og er sætið frábær árangur fyrir mannskapinn. Í hreinskilni sagt varð ég undrandi á niðurstöðunni, hélt að í mesta lagi væri að skríða inn í lokalotuna. Því er fimmta sætið tvímælalaust talsvert betra en ég bjóst við,“ sagði Verstappen.
Liðsfélagi hans Carlos Sainz varð í sjöunda sæti og útkoman því býsna hvetjandi fyrir Toro Rosso liðið.