Spænski ökumaðurinn Carlos Sainz hjá Toro Rosso að tilfinningin eftir að hafa náð sjötta sæti í bandaríska kappakstrinum líkist helst því sem hann hafi unnið keppnina.
Í ræsingunni hóf Sainz sig úr tíunda sæti í það áttunda og koma sýndaröryggisbíls í brautina um miðbik kappakstursins fleytti honum upp í fimmta sætið.
Undir lokin varðist hann lengi vel þeim Felipe Massa hjá Williams og Fernando Alonso hjá McLaren, en varð að sjá þann síðarnefnda skjótast fram úr á næst síðasta hring. Kom hann því á mark í sjötta sæti sem er jafnt hans besta á vertíðinni, en sama sæti hlaut hann í heimamóti sínu í Barcelona í maí.
Hann er samt á því að árangurinn í Austin hafi verið meira gefandi en sama sæti í Spánarkappakstrinum. „Árangurinn í dag er mjög sérstakur, algjört toppsæti. Enn sá hvati og gott að peppa upp á liðsandann. Við getum borið höfuðið hátt. Ekki veit ég hvað það er við brautina en tilfinningin í henni er alltaf góð. Ég mun minnast helgarinnar um ókomna framtíð, ég er alsæll með að jafna minn besta árangur.
Sætið er sætara en í Barcelona því við töldum okkur ekki með bíl til að ná þessu sæti hér. Allur hermiakstur gaf til kynna að við myndum í besta falli enda í ellefta eða tólfta sæti,“ segir Sainz.