Räikkönen fljótastur á blautum lokadegi

Kimi Räikkönen hjá Ferrari ók hraðast á fjórða og síðasta degi fyrstu lotu vetrarbílprófana formúluliðanna í Barcelona í dag.

Eftir að tankbílar höfðu úðað 250.000 lítrum af vatni um brautina áður en æfingin hófst þurftu ökumenn að hafa full regndekk undir bílum sínum. Enda hafði dekkjafyrirtækið Pirelli farið fram á sérstakar prófanir á nýjum dregndekkjum. 

Um leið og þurrar línur byrjuðu að myndast skiptu ökumenn yfir á millidekk og loks full þurrdekk. Hið sama var uppi á teningnum eftir hádegið og settu flestir sína bestu tíma undir lok æfingarinnar er brautin var orðin skraufþurr á ný.

Vegna vætunnar spöruðu ökumenn reyndar aksturinn en þá flesta ók Nico Hülkenberg hjá Renault, eða 51. Næstur honum varð Romain Grosjean hjá Haas með 49 hringi og síðan Räikkönen með 45.

Grosjean setti næstbesta tímann (1:22,739) en var 0,4 sekúndum lengur í förum en Räikkönen (1:22,305). Stoffel Vandoorne hjá McLaren varð þriðji (1:23,918) og Max Verstappen hjá Red Bull fjórði (1:23,920). 

Aðrir náðu tíma sem hér segir: Sergio Perez hjá Force India (1:24,893), Hülkenberg (1:24,974), Antonio Giovinazzi hjá Sauber (1:25,037), Valtteri Bottas hjá Mercedes (1:36.612) en Daniil Kvyat hjá Toro Rosso setti ekki tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert