„Ekki svo slæmt hjá gamla gaurnum“

„Ekki svo slæmt hjá gamla gaurnum,“ sagði Felipe Massa hjá Williams eftir að hann kom í mark í sjötta sæti í kappakstrinum í Melbourne. Keppir hann á ný eftir stutt „eftirlaunatímabil“, sem stóð í aðeins nokkrar vikur frá lokum síðustu keppnistíðar.

Þótt orðinn sé 35 ára gamall sýndi Massa að hann hefur engu gleymt eða glatað með því að verða sjöundi í tímatökunni í Melbourne og koma einu sæti framar í mark.

„Þetta var tvímælalaust góður kappakstur. Mikilvægast fyrir mig var að komast fram úr Romain Grosjean [hjá Haas] í ræsingunni því keppnin var meiri við hann heldur en þá ökumenn sem á eftir komu. Og á undan voru svo ökumenn sem mjög erfitt yrði að leggja, þá hjá Red Bull, Ferrari og Mercedes.

Startið tókst vel og ég skaust fram úr og eftir það var ég á auðum sjó alla leið í mark. Niðurstaðan var frábær og ég var mjög ánægður með gengið alla leið. Allt gekk upp eins og best verður á kosið, nýting dekkjanna, stöðugleiki bílsins, vinna alls liðsins, dekkjastoppin, allt tókst vel. Við lögðum liðin á eftir okkur réttilega að velli.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert