Eigandi og liðsstjóri Force India liðsins í formúlu-1, Vijay Mallya, hefur verið handtekinn í Englandi í tengslum við beiðni um framsals hans til Indlands.
Mallya hefur verið ákærður í Indlandi vegna peningalána sem áttu að renna til flugfélags hans, Kingfisher Airlines, sem nú er gjaldþrota.
Lögreglan í London staðfesti í dag að Mallya væri í hennar höndum. Hefði hann verið handtekinn í morgun. Talsmaður utanríkisráðuneytisins í Nýju Delhí sagði að breska lögreglan væri nú að vinna úr framsalsbeiðninni. Í gildi væru samningar milli ríkjanna um framsal sakamanna.
Telja indversk yfirvöld sig hafa góða ástæðu til að ætla að Mallya verði framseldur til heimalands síns. Hann er sakaður um að hafa ráðstafað verulegum hluta lánanna, sem ætluð voru flugfélaginu, til annarra nota.
Mallya verður leiddur fyrir rétt síðar í dag þar sem framsalsmálið verður tekið fyrir.