Sainz á leið til Renault

Carlos Sainz er á leið frá Toro Rosso til Renault.
Carlos Sainz er á leið frá Toro Rosso til Renault. AFP

Carlos Sainz er „nálægt“ því að klára samning um að keppa fyrir Renaultliðið á næsta ári, að sögn umboðsmanns hans. 

Sainz hefur verið bendlaður við Renaultför í tengslum við mál þar sem McLaren, Honda, Red Bull og Toro Rosso koma við sögu og snýst um hvaða vélar knýja bíla Toro Rosso á næsta ári.

Þau mál hafa ekki verið til lykta leidd en snúast um að McLaren og Toro Rosso hafi vélaskipti. Fyrrnefnda liðið fái Renaultvélar í stað Toro Rosso sem fær Hondavélar í skiptunum.

Frændi Sainz og umboðsmaður, Carlos Onoro, staðfestir að samningar við Renaultliðið séu á lokametrunum. Aðeins sé eftir að ganga frá smærri atriðum. Enn sem komið væri hafi þó ekkert verið undirritað.

Onoro segir ekkert hæft í fregnum þess efnis að Sainz komi fyrr til Renault en við vertíðarlok og leysi  Jolyon Palmer af frá og með Malasíukappakstrinum.

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert