Alfa romeo snýr aftur

Bílaframleiðendur hafa verið að safnast í formúlu-1, og einnig rafbílaformúluna Formula-E, á undanförnum árum. Nýjasta viðbótin er ítalski bílsmiðurinn Alfa Romeo, sem ákveðið hefur að snúa aftur til þátttöku í formúlunni eftir þrjátíu ára fjarveru. Verður fyrirtækið aðalstyrktaraðili svissneska liðsins Sauber.

Alfa Romeo er hluti af Fiat Chrysler Automobiles (FCA) samsteypunni og hefur endurkoma í formúluna legið í loftinu undanfarna mánuði, en forstjóri FCA, Sergio Marchionne, knúði málið í gegn innan samsteypunnar, sem einnig á Ferrari.

Fyrir honum vakti að ná augum og eyrum yngra fólks en að jafnaði kaupir Alfa Romeo bíla. Hefur hann ítrekað talað um löngun sína til að hinn gamalgróni bílsmiður sneri aftur og nú hefur það gengið eftir með Sauber, sem er einna langlífast núverandi liða í íþróttinni.

Alfa Romeo keppti í formúlu-1 frá fyrsta móti, 1950, og ökumennirnir Nino Farina og Juan Manuel Fangio urðu heimsmeistarar tveggja fyrstu áranna. Með titlana örugglega í höfn dró bílsmiðurinn sig hins vegar úr íþróttinni. Það kom að nýju til keppni 1979 til 1985 sem bílsmiður. Vann einn ráspól og átti nokkrum sinnum ökumann á verðlaunapalli en náði aldrei framar en í sjötta sæti í stigakeppni liðanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert