Ætla sér framar á rásmarki

Alfa Romeo Sauber F1 liðið vonast til að nýfrumsýndur keppnisbíll ársins muni gera svissneska liðinu kleift að smokra sig fram eftir rásmarkinu á komandi keppnistíð.

Ekki fer á milli mála hver hinn nýi aðal samstarfsaðili Sauber er. Bæði nafn og táknmerki ítalska sportbílasmiðsins Alfa Romeo eru þar mjög áberandi, en bíllinn verður knúin vél frá Ferrari.

Liðsstjórinn Fred Vasseur er vongóður um framfarir Sauber í ár en varar þó við að bílar liðsins hafi verið langt á eftir öðrum í fyrra og því þurfi þeir að brúa stórt bil til að verða samkeppnisfærir.

„Ég hlakka mjög til keppnistíðarinnar og sjá Marcus [Ericsson] og  Charles [Leclerc] á brautinni, segir hinn franski stjóri Sauber. „Við höfum lagt heilmikla vinnu í bílinn í vetur og það er frábært að frumsýna hann nú.“

Ericsson er að hefja sitt fjórða starfsár hjá Sauber en Leclerc er nýliði sem staðið hefur sig vel í lægri formúlum undanfarin ár.

Fred Vasseur spáir því að gríðarlega hörð keppni margra liða verði í miðjum hópi formúlubílanna í ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert