Daniel Ricciardo hjá Red Bull setti besta brautartímann á fyrsta þróunarakstursdegi formúluliðanna sem fram fór í Barcelona í dag.
Ricciardo ók rúmlega eitthundrað hringi en kalt var í brautinni og aðstæður því ekki gagnlegar til bílprófana. Besta hringinn ók hann á 1:20,179 mínútum. Næsthraðast fór Valtteri Bottas á Mercedes á 1:20,349 og þriðja besta tímann setti Kimi Räikkönen á Ferrari, 1:20,506 mín.
Heimsmeistarinn Lewis Hamilton tók við af Bottas eftir hádegið en setti aðeins sjöunda besta tímann (1:22,327) og var meira en tveimur sekúndum lengur í förum en Ricciardo.
Nico Hülkenberg (1:20,547) og Carlos Sainz (1:22,168) sýndu að Renaultbílinn virðist talsvert spunnið í því þeir settu fjórða og sjötta besta tímann. Ók Sainz eftir hádegið en engir ökumenn bættu morguntímana í þeirri lotu. Hülkenberg ók manna mest fyrir hádegið eða 73 hringi.
Svo óvenjulega vildi til að afturhjól slitnaði frá McLarenbíl Fernando Alonso eftir aðeins nokkra hringi um morguninn. Sagði hann um litla bilun hafi verið að ræða þótt óhappið hafi virst alvarlegt. Tapaði hann aðeins rúmri klukkustund í akstri meðan gert var við bílinn. Tók hann til við aksturinn að nýju eftir hádegi og endaði í fimmta sæti (1:21,339). Lagði hann að baki 51 hring sem var stórum meira en á fyrsta degi í fyrra er McLaren glímdi við aflvana og endingarlitlar vélar.
Áttunda besta tímann átti Brendon Hartley hjá Toro Rosso (1:22,371) og í næstu sætum á lista yfir hröðustu hringi urðu Lance Stroll hjá Williams (1:22,452), Romain Grosjean hjá Haas (1:22,578), Mvarcus Ericsson á Sauber (1:23,408),Nikita Mazepin á Force India (1:25,628) og Sergej Sírotkín á Williams (1:44,148).
Segja má að framfarir dagsins hafi fallið Honda í skaut því Hartley ók alls 93 hringi, næst mest allra í dag. Mældist hann næsthraðast í hraðagildrunni en þetta eru allt önnur úrslit en í fyrra er Hondavélin reyndist bæði aflvana og frámunalega endingarsnauð.