Morgunflýtir sem enginn átti svar við
Sebastian Vettel hjá Ferrari ók allra manna hraðast við bílprófanir formúluliðanna í Barcelona. Bætti hann brautarmetið frá í gær verulega með miklum morgunspretti sem enginn ökumaður átti neitt svar við það sem eftir lifði dagsins.
Vettel ók hringinn best á 1:17,182 mínútum með ofurmjúku dekkin undir bílnum. Er það tæplega einnar sekúndu betri tími en nokkur annar hefur nokkru sinni náð í Barcelona. Að einhverju leyti hjálpaði til að brautarmalbikið hefur nýlega verið endurnýjað.
Annars lögðu flest liðin áherslu á langaksturslotur í dag með fulla tanka af bensíni en létu eiga sig að prófa topphraða bílanna. Næsthraðast fór Kevin Magnussen hinn danski hjá Haas, á 1:18,360 mín. Þriðja besta tímann átti Pierre Gasly hjá Toro Rosso, 1:18,363 mín.
Í næstu sætum á lista yfir hröðustu hringi urðu: Nicol Hülkenberg á Renault (1:18,675), Carlos Sainz á Renault (1:18,675), Stoffel Vandoorne á McLaren (1:18,855), Marcus Ericsson hinn sænski á Sauber (1:19,244), Lewis Hamilton á Mercedes (1:19,269), Valtteri Bottast á Mercedes (1:19,532), Robert Kubica á Williams (1:19,629), Sergio Perez á Force India (1:19,634), Max Verstappen á Red Bull (1:19,842) log Lance Stroll á Williams(1:20,276).
Vettel ók manna mest í dag eða 185 hringi eða sem svarar þrefaldir kappaksturslengd. Magnussen ók 150 hringi og Gasly 169. Renault bílnum óku Hülkenberg og Sainz 145 hringi, Vandoorne ók 148 hringi, Ericsson 146, Mercedesbílnum óku Hamilton og Bottas 181 hring, Kubica og Stroll óku Williamsbílnum 136 hringi en hringjamet dagsins átti svo Versteppen sem ók Red Bull bílnum heila 187 hringi.