Hætta ef ekki kemur þak á eyðslu

Claire Williams mætir til leiks í Barein fyrir hálfum mánuði.
Claire Williams mætir til leiks í Barein fyrir hálfum mánuði. AFP

Williamsliðið mun loka fyrirtækinu og hætta keppni  í formúlu-1 komi ekki þak á heildareyðslu liðanna vegna þátttökunnar.

„Williams mun loka,“ segir liðsstjórinn Claire Williams, en hún er í forsvari fyrir eitt af elstu liðum formúlunnar. Hefur hún hvatt eigendafélag formúlunnar, Liberty Media, til að hvika ekki frá áformum um að setja eyðsluþak. Hefur Liberty lagt til á fundi með liðunum að kostnaður þeirra megi ekki vera umfram 150 milljónir dollara frá og með 2021.

Claire hefur hrósað tillögum Liberty um framtíðarumgjörð liðanna, þar á meðal útgjaldaþakið,  en fulltrúar stórliðanna finna þeim eitt og annað til foráttu, sérstaklega Mercedes og Ferrari. Haft hefur verið eftir Williams að sú andstaða sé mjög öflug. „Verði ekki farið að tillögunum, þá blasir það við frá mínum bæjardyrum að Williamsliðið muni loka og hætta keppni,“ segir hún.

Williams segist heppin að því leyti að liðið þurfi ekki að grípa til sparnaðarráðstafana miðað við tillögu Liberty. Á sama tíma myndu stóru liðin þurfa fækka verulega mannskap og stokka upp starfsemina. Segir hún rekstrarmódel Williamsliðsins smellpassa að hugmyndum Leberty fyrir formúluna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert