Mercedes sekúndu hægari í ár

Lewis Hamilton á ferð á Mercedesbílnum í tímatökunni í Bakú …
Lewis Hamilton á ferð á Mercedesbílnum í tímatökunni í Bakú í dag. AFP

Mercedesliðið drottnaði í tímatöku kappakstursins í Bakú undanfarin tvö ár og hafði á annarrar sekúndu forskot á næstu bíla. Þetta forskot hefur glutrast niður, svo sem sjá mátti í tímatökunni í dag, þar sem Ferrari réði ríkjum.

Lýsa mætti þessu sem stóru skrefi afturábak en Mercedes hefur virst nokkuð áttavillt það sem af er keppnistíðarinnar.  Munaði ennþá rúmri sekúndu að það kæmist í dag nálægt sínum bestu hringjum í tímatökunni í Bakú fyrra.

Mercedes er þó ekki eina liðið sem sýnir ekki framfarir milli ára í tímatökunni í Bakú. Helmingur fyrstu tíu liðanna er í sömu stöðu. Eftirtektarvert er að öll liðin með Mercedesvél í bílum sínum eru í þessum hópi.

Aftur á móti bæta sig allir bílar með Ferrarivél í skottinu en brautin í Bakú launar aflmiklum bílum getu sína. Verið getur að veðurfar hafi haft hér áhrif til hins verra fyrir Mercedes en mun lægri lofthiti er í Bakú á þessum árstíma en þegar mótið hefur verið haldið í júní.

Aukinheldur hefur verið vindasamt og spáð er enn meiri vind á morgun sem gera mun ökumönnum verulega erfitt fyrir í beygjum og á bremsusvæðum.

Fyrir utan þetta má geta þess, að bílar Toro Rosso hafa verið hæggengari í öllum fjórum mótum ársins nema einu. Munaði í dag hálfri annarri sekúndu frá í fyrra.

Renault er það lið sem bætt hefur sig mest frá í fyrra. Þar á eftir er McLaren.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert