Red Bull liðið verður að gera það upp við sig fyrir næstu mánaðamót hvort það ætlar að brúka áfram vélar frá Renault á næsta ári eða ganga á vit Honda.
Formlegar viðræður Red Bull og Honda hófust á kappaksturshelginni í Bakú fyrir 10 dögum.
Samkvæmt reglum Alþjóða akstursíþróttasambandsins (FIA) verða lið að gefa til kynna fyrir 15. maí ár hvert hvaða vélar það ætlar að hafa í bílum sínum árið eftir. Þetta mun ekki vera stíf regla en Renault segist í síðasta lagi 31. maí þurfa að fá niðurstöðu vegna ýmissra ráðstafana sem grípa þurfi til.
„Eftir 31. maí getum við ekki tryggt Red Bull vélar frá Renault,“ segir Renaultstjórinn Cyril Abiteboul við bílaritið Auto Hebdo. „Við höfum veitt þeim lengri frest, hálfan mánuð til viðbótar.“
Abiteboul segir Renault tilbúið að eiga áfram samstarf við Red Bull þrátt fyrir að liðið hafi gengið til viðræðna við Honda. „Eftir 12 ára árangursríkt samstarf erum við tilbúnir að vinna áfram með Red Bull. Aðal vandamálið er tímaskortur,“ sagði hann.