Mercedes ætlar að ganga frá því í júlí hverjir verði ökumenn liðsins á næsta ári. Lewis Hamilton hefur verið settur lokafrestur til að ljúka samningum um áframhaldandi starf hjá Mercedesliðinu.
Liðsstjórinn Toto Wolff segir Hamilton besta ökumanninn sem völ er á en ekki er loku fyrir það skotið að hann rói í aðrar áttir. Þó er miklu fremur búist við að hann verði um kyrrt hjáMercedes og að fljótlega verði tilkynnt um nýjan risasamning hans.
Sömuleiðis rennur samningur Valtteri Bottas út á árinu, en Wolf segir að ekki verði farið útfyrir ökumannahóp Mercedes við ráðningu nýs ökumanns hverfi annar hvor þeirra Hamiltons og Bottas á braut. Fremstur í fylkingu sem afleysingamaður er Esteban Ocon sem er á láni frá Mercedes hjá Force India.