Alonso sagður á leynifundi

Spænskir fjölmiðlar hafa gefið til kynna að Fernando Alonso kunni að snúa aftur til Ferrari á næsta ári. Fróðir menn telja að hér sé frekar um óskhyggju viðkomandi miðla að ræða en hugsanlegan veruleika.

Vefsíðan Diario Gol reið á vaðið með þetta mál og staðhæfir að Alonso hafi setið leynifund með fulltrúum Ferrari á kappaksturshelginni í Barcelona. Sé fótur fyrir því þá þykir ólíklegt að þeir hafi verið að rifja upp gamla tíma.

Líklegt þykir að Kimi Räikkönen sé á útleið úr formúlunni við komandi vertíðarlok og því eru komnar á kreik sögur og vangaveltur um hver leysir hann af hólmi.

Diario Gol segir að Flavio Briatore, umboðsmaður Alonso, hafi reynt að toga í eins marga spotta og frekast hefur verið unnt í þeim tilgangi að koma skjólstæðingi sínum aftur á launaskrá í Maranello, höfuðstöðvum Ferrari.

Heilbrigð skynsemi segir þó að hér sé um frekar fjarstæðukenndan möguleika að ræða þótt vissulega yrði það að teljast snilldarbragð fyrir Alonso og Briatore gengi það upp.

Í fyrsta lagi þykir afar ólíklega að Sebastian Vettel rúlli út rauða teppinu þegar Alonso sneri aftur til Maranello. Ástæðan er sú að honum þætti ekki pláss fyrir tvo hana í hænsnahúsi.

Tæki Vettel hins vegar áskoruninni hefði það líklega í för með sér kjaraskerðingu fyrir Alonso miðað við hin miklu laun sem hann fær hjá McLaren.

Loks þýddi keppni með Ferrari að Alonso mundi útiloka sig frá samhliða keppni í öðrum greinum kappaksturs eins og hann hefur sóst eftir. Til að mynda keppti hann fyrir Honda í Indy 500 kappakstrinum mikla í fyrra og í ár reynir hann sig í sólarhringskappakstrinum í Le Mans með Toyota en hann hefur þegar samið um þá keppni einnig á næsta ári, 2019.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert