Vill Ricciardo áfram hjá Red Bull

Maðurinn sem öllu ræður um ökumannamál Red Bull og Toro Rosso, Helmut Marko, segist vilja  að Daniel Ricciardo verði áfram hjá Red Bull en samningur hans rennur út við vertíðarlok.

Liðið hefur eina ferðina enn lýst löngun sinni til að Ricciardo verði áfram ökumaður þess. Samningur hans rennur út í vertíðarlok og er hann sagður m.a.  hafa horft til þess að komast að hjá annað hvort Ferrari eða Mercedes.

Á sama tíma og flest hefur gengið Max Verstappen í mót hefur Ricciardo verið í toppformi og en hann hefur unnið tvö mót í ár, í Sjanghæ í Kína og í Mónakó. „Hann er núna nokkrum milljónunum  dýrari,“ sagði Nico Rosberg, heimsmeistari ársins 2016, eftir sigur Ricciardo í Mónakó.

Lewis Hamilton hjá Mercedes tekur undir með fyrrum liðsfélaga sínum. „Mér er sagt hann fái lægra kaup en Verstappen jafnvel þótt hann afreki miklu meira. Hann er foringinn hjá Red Bull.“

Red Bullstjórinn Christian Horner segir liðið vilja að Ricciardo verði um kyrrt. „Daniel þekki getumöguleika liðsins, hann sér hversu vel liðið hentar honum og ég vona að á næstu mánuðum munum við semja um allt sem útaf stendur,“ segir hann.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert