Fernando Alonso segist gera „allt sem mögulegt er“ á þeim bíl sem hann hefur í höndunum en tímatakan í dag var sú versta sem McLarenliðið upplifir á árinu. Voru báðir ökumennirnir slegnir út í fyrstu lotu.
Er þetta í fyrsta sinn á árinu sem Alonso nær ekki í aðra lotu tímatöku, en fyrir viku fagnaði hann sigri í sólarhringskappakstrinum í Le Mans í Frakklandi á Toyotabíl.
Varð hann í aðeins 16. sæti í tímatökunni í Le Castellet í Suður-Frakklandi í og liðsfélaginn Stoffel Vandoorne tveimur sætum aftar, því 18.
„Ég reyni allt sem ég get og held að ég sé eini ökumaðurinn sem hefur 8:0 gegn meistaranum í GP3, GP2 og öllum flokkunum sem hann keppti í,“ segir Alonso og á þar við að hann hafi í öllum tímatökum ársins verið framar liðsfélaga sínum, Vandoorne.
„Svona er formúla-1, þú þarft rétta pakkann á réttum stað. Síðustu mót hafa ekki lagst fyrir okkur en þrátt fyrir allar hörmungarnar erum við í sjöunda sæti í titilkeppninni svo eitthvað erum við að gera rétt,“ bætir hann við.