Eftirlitsdómarar þýska kappakstursins kölluðu Lewis Hamilton á teppið til að útskýra hvers vegna hann ók út úr aðrein bílskúranna út í brautina aftur.
Hamilton slapp með áminningu og heldur því fyrsta sætinu sem hann vann svo óvænt eftir að hafa byrjað keppni í 14. sæti vegna bilunar í tímatökunni. Lítils háttar rigning varð honum til happs en miklu frekar þó óhapp Sebastians Vettel á Ferrari sem féll úr leik vegna akstursmistaka er rúmur fimmtungur vegalengdarinnar var eftir. Var Vettel þá með örugga níu sekúndna forskot á næsta bíl.
Óhappið varð til þess að öryggisbíll var kallaður út í brautina og nær samstundis fékk Hamilton misvísandi fyrirmæli frá stjórnborði McLaren. Fyrir bragðið ók hann inn í bílskúrareinina í þeirri trú að ný dekk skyldu sett undir bílinn. En á leið inn að bílskúrunum skaust hann yfir grasbala og aftur inn í brautina. Var það lykillinn að sigri hans.
Hamilton og Mercedes var stefnt fyrir dómara kappakstursins að verðlaunaafhendingu lokinni vegna meints brots á keppnisreglum Alþjóða akstursíþróttasambandsins (FIA). Þótti sigur hans í uppnámi ef til akstursvítis kæmi þar sem hann kom í mark 4,5 sekúndum á undan liðsfélaga sínum Valtteri Bottas.
Að loknum löngum fundi og yfirsetu ákváðu eftirlitsdómararnir að refsingin skyldi takmarkast við áminningu, hina fyrstu sem Hamilton hlýtur á keppnistíðinni.
„Það er klárlega ljóst að keppnisreglur voru brotnar er ökumaðurinn ók yfir línurnar sem aðskilja keppnisbrautina og aðrein bílskúrareinarinnar,“ segir í niðurstöðum dómaranna sem segjast hafa ákveðið að taka tillit til ringulreiðar innan liðsins á því augnabliki sem brotið var framið. Þá hafi brotið átt sér stað meðan öryggisbíll var í brautinni og öðrum keppendum engin hætta búin af atvikinu.