McLarenliðið staðfesti í dag, að Fernando Alonso muni hætta keppni í formúlu-1 er yfirstandandi keppnistíð lýkur í nóvember.
Alonso varð 37 ára í síðasta mánuði og er á sinni 17. keppnistíð í formúlu-1 og á sinni fimmtu með McLaren.
Alls hefur hann unnið 32 mót á ferlinum, 22 ráspóla og 97 sinnum staðið á verðlaunapalli í formúlu-1. Tvisvar hefur hann hampað heimsmeistaratitli ökumanna, 2005 og 2006. Var hann yngsti ökumaður sögunnar til að vinna titilinn. Þrisvar hefur Alonso orðið í öðru sæti í titilkeppninni.
Alonso sagði í dag, að kominn væri tími til að sækja inn á nýjar lendur akstursíþrótta. Talið hefur verið að hann muni reyna sig í bandarísku systurkeppni formúlunnar, Indicar-mótunum. Í sumar spreytti hann sig á þolakstri með þeim árangri að vinna sólarhringskappaksturinn fræga í Le Mans í Frakklandi.