Svíinn Marcus Ericsson hefur ráðið sig til að keppa í bandarísku IndyCar mótaröðinni en hann yfirgefur formúlu-1 í nóvember eftir fimm ár í keppni með Sauberliðinu.
Ericsson hefur samið um að keppa fyrir Schmidt Peterson Motorsport frá og með næsta ári, 2019. Annar liðsfélagi hans verður James Hinchcliffe en liðið á eftir að ráða sinn þriðja ökumann.
„Það er mikill heiður fyrir mig að verða fyrir valinu hjá Schmidt Peterson Motorsports í IndyCar mótunum á næsta ári. Þetta er hið fullkomna framhald af keppni minni í formúlu-1 í fimm ár,“ sagði Ericsson í tilefni vistaskiptanna.