Sagður hafa reynt að kúga liðið

Fernando Alonso á fleygiferð á McLarenbílnum í Mexíkókappakstrinum á dögunum.
Fernando Alonso á fleygiferð á McLarenbílnum í Mexíkókappakstrinum á dögunum. AFP

Fernando Alonso reyndi að kúga McLarenliðið til að eyðileggja ungverska kappaksturinn 2007 fyrir liðsfélaganum Lewis Hamilton með því að láta bensínbirgðir hans renna til þurrðar svo hann kæmist ekki alla leið í mark.

Alonso, sem þreytir sinn síðasta formúlu-1 kappakstur um helgina, gerði kröfu um þetta eftir að hann var víttur fyrir að tefja fyrir Hamilton á bílskúrasvæðinu í tímatökunni í Búdapest, að sögn breska útvarpsins BBC.

Fáleikar voru með ökumönnunum en Hamilton hafði fyrr í tímatökunni hafnað beiðni af stjórnborði liðsins að hleypa Alonso fram úr sér. Hefndi Alonso þess með því að draga það að taka af stað frá bílskúrnum meðan Hamilton beið fyrir aftan eftir að vera þjónustaður.

Fyrir þetta uppátæki var Alonso víttur með afturfærslu um fimm sæti á rásmarkinu í Búdapest. Það mun síðar hafa orðið tilefni þess að Alonso  krafðist þess af liðsstjóranum Ron Dennis að keppnin yrði eyðilögð fyrir Hamilton, sem fyrr segir, að sögn BBC.

Breska útvarpið heldur því fram að þetta hafi gerst á fundi hans og umboðsmannsins Luis Garcia Abad með Dennis. Yrði ekki orðið við kröfunni sagði Alonso við Dennis að hann myndi ljóstra upp um umfang notkunar McLaren á illa fengnum trúaðar- og tæknigögnum frá Ferrariliðinu.   

Þessu hafnaði Dennis og sneri sér í staðinn til FIA-forsetans Max Mosley um upplýsingarnar sem Alonso bjó yfir. Við því brást FIA með rannsókn á því hvaða leynigögnum Ferrari McLaren bjó yfir. Lyktir þess voru að McLaren var svipt öllum keppnisstigum í liðakeppninni 2007 og sektað um 100 milljónir dollara.

Abad gekk svo aftur á fund Dennis samdægurs og sagði Alonso hafa verið í bræðiskasti þegar hann setti kröfuna fram og hefði dregið hana til baka.

Hamilton hóf keppni af ráspól og ók til sigurs. Alonso hóf keppnni í sjötta sæti vegna afturfærslunnar og kom fjórði í mark.

Alonso yfirgaf svo McLaren í vertíðarlok en gekk aftur til liðs við McLaren 2015, eftir að Hamilton var líka farinn.

Fernando Alonso ræðir við vélfræðing í bílskúr McLaren í Sao …
Fernando Alonso ræðir við vélfræðing í bílskúr McLaren í Sao Paulo á dögunum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert