Draumur Sainz rættist

Carlos Sainz í síðasta kappakstri sínum með Renault, í Abu …
Carlos Sainz í síðasta kappakstri sínum með Renault, í Abu Dhabi. AFP

Carlos Sainz  segir fyrsta starfsdag sinn hjá McLaren liðinu hafi verið eins og draumur sem hafi ræst. Reynsluók hann fyrir sitt nýja lið á æfingum í framhaldi af  lokamóti ársins í Abu Dhabi.

Fyrri dag æfinganna sá verðandi liðsfélagi Sainz um aksturinn, nýliðinn Lando Norris en Spánverjinn tók svo við seinni daginn og lagði að baki hvorki fleiri né færri en 150 hringi.Setti hann fimmta besta tíma dagsins.

Að aka út úr bílskúrnum á fyrsta degi sem ökumaður McLaren var draumur að rætast. Í lok dagsins leið mér einstaklega vel,“ sagði Sainz sem er 24 ára. „Mannskapurinn tók sérdeilis vel á móti mér og ég er þakklátur honum fyrir þann endingartrausta bíl sem mér var lagður til. Frá fyrsta hring til þess 150. naut ég mín í bílnum og tilfinningin var góð.“

Sainz kemur í stað  landa síns Fernando Alonso og segir að McLarenliðið eigi fyrir dyrum talsvert verk við að bæta bílinn fyrir 2019-vertíðina. Svo sé alltaf, liðin leiti öllum stundum að leiðum til að bæta bíla sína.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert