Erfiðasti keppinauturinn

Schumacher (t.v.) sem ökumaður Mercedes og Alonso sem ökumaður Ferrari …
Schumacher (t.v.) sem ökumaður Mercedes og Alonso sem ökumaður Ferrari á blaðamannafundi í vertíðarlok í Sao Paulo í Brasilíu 2012. AFP

Fernando Alonso sagði skilið við keppni í formúlu-1 við vertíðarlok í Abu Dhabi og í framhaldinu hefur hann viðrað skoðun sína á mönnum og málefnum íþróttarinnar.

Þannig segir hann að harðasti keppinautur hans á löngum ferli hafi ekki verið toppmennirnir í dag, Lewis Hamilton og Sebastian Vettel, heldur Michael Schumacher. Batt Alonso enda á drottnun Ferrari og Schumacher í byrjun aldarinnar er hann varð heimsmeistari fyrra sinni á Renaultbíl árið 2005.

Rimmur þeirra urðu enn harðari og tvísýnni árið 2006 en Schumacher mistókst þó að vinna titil ökumanna í áttunda sinn það ár, en að því loknu dró  hann sig fyrra sinni út úr keppni.

„Það er erfitt að gera upp á milli og velja einn, en fyrst ég verð að gera það þá verð ég að nefna Michael,“ segir Alonso. „Það er ekki af neinni sérstakri ástæðu, en þegar ég kom til keppni í formúlunni drottnaði Michael í íþróttinni. Við börðumst oft í návígi, nudduðum saman hjólum nánast, og slíkar orrustur eru tvímælalaust sérstakar og tilfinningaríkari.“

Alonso ákvað að draga sig út úr keppni í formúlu-1 en mun keppa í bandaríska Indy 500 kappakstrinum mikla á McLarenbíl 2019. Þá  mun hann halda áfram keppni í þolkappakstri (WEC) með Toyotaliðinu en með því ók hann til sigurs í sólarhringskappakstrinum í Le Mans.

Alonso varð meistari í WEC-mótunum 2018. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert