McLaren liðið hefur fengið þær upplýsingar frá mótorsmiðju Renault að „fundist hefðu kílóvött“ við þróun keppnisvélarinnar fyrir komandi keppnistíð í formúlu-1.
Reynist þetta rétt hefur Renault náð náð árangri í þeim tilraunum sínum að nálgast Mercedes og Ferrari að getu á 2019-vertíðinni.
Þetta þykja einnig góð tíðindi fyrir McLaren sem hefur átt fjögur erfið ár fjarri toppenda rásmarksins í formúlunni. Hefur liðið aldrei í sögu sinni glímt við annað eins getuleysi og undanfarin ár.
„Þeir segjast vera afar ánægðir með framfarirnar í vetur. Þeir hafa náð út hellings viðbótarafli og telja sig verða í slagnum,“ sagði McLarenstjórinn Zak Brown. Hann sagðist þó ekki myndu segja hversu mikið viðbótaraflið væri, „en þeir telja sig verða mjög samkeppnisfæra á komandi keppnistíð,“ bætti hann við.
Brown sagðist vilja tala af hóflegri bjartsýni og ekki brenna sig öðru sinni á því að spila upp of miklar væntingar til McLaren.