Sauberliðið fær nýtt nafn fyrir komandi keppnistímabil í formúlu-1. Héðan í frá heitir það Alfa Romeo Racing.
Alfa Romeo var síðast keppandi undir eigin merkjum í formúlunni árið 1985. Varð liðið í neðsta sæti á keppnistíðinni og lagði upp laupana. Sneri það aftur til keppni í fyrra sem aðal styrktaraðili Sauber.
Sauber hefur aftur á móti verið í keppni frá 1993 og mun nafnbreytingin engin áhrif hafa á eigendahóp liðsins og rekstur.
Alfa Romeo hafði drottnandi liði á að skipa á fyrstu árum formúlu-1. Vann Giuseppe Farina til dæmis heimsmeistaratitil ökumanna á fyrsta ári íþróttarinnar, 1950. Ári seinna vann Juan Manuel Fangio sinn fyrsta titil af fimm en í það skipti ók hann einnig fyrir Alfa Romeo.
Ökumenn í ár verða Finninn Kimi Räikkönen og Ítalinn Antonio Giovinazzi.