Sauberbíllinn nýi birtist sjónum manna í dag er starfsemi kerfa hans voru prófuð í Fiorano-brautinni á Ítalíu. Birti Sauber myndir frá því á heimasíðu sinni á netinu.
Reyndar verður að hætta að tala um Sauber því liðið mun tefla keppnisbílum sínum fram í ár undir heitinu Alfa Romeo, en ítalski sportbílasmiðurinn hefur yfirtekið liðið.
Undir stýri við aksturinn í dag var Kimi Räikkönen, sem keppti undanfarin fimm ár með Ferrari. Ók hann alls 33 hringi í Fiorano. Liðsfélagi hans verður ítalski ökumaðurinn Antonio Giovinazzi sem keppti fyrstu tvö mótin í fyrra sem þriðji ökumaður Sauber.
Framvængur bílsins hefur vakið athygli sakir sérstakrar hönnunar, samanborið við aðra bíla sem búið er að svipta hulum í aðdraganda vertíðar.
Sauberliðið hóf keppnistíðina í fyrra einna aftast á rásmarkinu en tókst svo að þróa bílinn jafnt og þétt árið út í gegn. Vonast liðsmenn til að geta byrjað á þeim stað sem liðið endaði 2018.