Bensín Ferrari lyktar sem ávaxtasafi

Ferrarifákarnir á ferð í Barein. Sebastian Vettel (t.v.) og Charles …
Ferrarifákarnir á ferð í Barein. Sebastian Vettel (t.v.) og Charles Leclerc (t.h.) AFP

Vart er keppnistímabilið hafið í formúlu-1 er liðsstjórar byrja á að gera keppinautana tortryggilega. Red Bull stjóranum Christan Bull  hefur tekist að beina athyglinni að bensíni Ferrarifákanna með óvenjulegum málflutningi.

Með þessu er hafin ný lota í deilunum um eldsneyti Ferrari sem fundið hefur aðferð til að ná verulega meiru út úr bílum sínum í ár en í fyrra. Hafa forsvarsmenn liða þráttað um lögmæti orkugjafa Ferrarifákanna, bæði í fyrra og aftur í ár. Eftir á að koma betur í ljós hvort Ferrari hafi tekist að getu að skjótast fram úr bílum Mercedesliðsins.

Nýjar fullyrðingar Horner vekja athygli því hann segir bensín Ferraribílanna lykta eins og greipaldinsafi! Segir hann lyktina skera sig úr, ef til vill vegna hugsanlegrar uppfinningar Shell sem leggur Ferrari  til bensín í keppnisbílana. 

„Eldsneyti frá Ferrari lyktar eins og greipaldinsafi,“ sagði Horner en hann var ekki sá eini til að lyfta augabrúnum yfir lyktinni. „Ferrarivélin hefur skyndilega bætt við sig kraftshvelli, eins og í fyrra,“ sagði tæknistjóri Red Bull, Adrian Newey. „Við héldum að Alþjóða akstursíþróttasambandið hefði lokað öllum smugum í reglunum,“ bætti hann við.

Spurningar vöknuðu í fyrra vegna meintrar olíubrennslu í vélum keppnisbíla og er talið að það geti verið ástæðan fyrir auknu afli Ferraribílanna þó svo hert hafi verið á reglum.

Vegna endingarskorts varð Ferrari af næsta öruggum tvöföldum sigri í kappakstrinum í Barein um fyrri helgi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka