Ferraristjórinn Mattio Binotto vísar því á bug að liðsfyrirmælum hafi verið beitt í fyrstu mótunum til að styrkja stöðu Sebastians Vettels og veita honum forskot á Charles Leclerc.
Binotto kveðst hafa samúð með Leclerc en hann hefur þurft að sæta liðsfyrirmælum í öllum þremur fyrstu mótunum. Þykir það í hróplegu ósamræmi við yfirlýsingar dagana fyrir fyrsta mót ársins, í Melbourne, að þeim Vettel og Leclerc „yrði frjálst“ að keppa innbyrðis í mótum.
Í Kínakappakstrinum um nýliðna helgi vann Leclerc sig fram úr Vettel á fyrstu metrunum en var síðan gert að hleypa honum fram úr svo hann gæti haldið til rimmu við ökumenn Mercedes sem þá voru í fyrstu tveimur sætunum.
Vettel reyndist ókleift að nálgast silfurörvarnar og allt varð þetta til þess eins að Max Verstappen á Red Bull dró Leclerc uppi og vann sig fram úr honum að lokum.
Í talstöðinni lýsti Leclerc andstöðu sinni við liðsfyrirmælin og Binotto kvaðst skilja kvörtun hans. Bar þó á móti því að fyrirmælin væru til marks um ójafna stöðu ökumannanna hjá Ferrari.