Lewis Hamilton segir það ekki rétt að hann hafi átt viðræður við Mercedesstjórann Toto Wolff um hugsanlega för ökumannsins til Ferrari.
Wolff segir málið hafa komið upp er þeir ræddu og gengu frá framlengingu á samningi Hamiltons við Mercedes. Segir Wolff að Hamilton hafi í raun rætt í fyrra við fulltrúa Ferrari um að hann hefði áhuga á að ljúka keppnisferli sínum í formúlu-1 með ítalska stórliðinu.
„Ég veit ekki hvað Toto er að fara, ég geri ráð fyrir að í öllum samningaviðræðum skjóti nafni Ferrari upp. Toto er klár karl og samningaviðræður okkar góðar. Auðvitað hef ég nú verið á mála hjá Mercedes frá því ég var 13 ára og því erfitt að ímynda sér að ég fari annað. Ég hef þó aldrei farið dult með að ég er hrifinn af Ferrari, sérstaklega bílum,“ sagði Hamilton er hann brást við ummælum Wolff.
Hann kveðst ekkert útiloka neitt í framtíðinni en hefði engar áætlanir gert og nyti þess að aka fyrir Mercedes. „Markmið mitt er að gera þetta lið að því besta og sigursælasta í sögu formúlunnar,“ sagði Hamilton.
Toto Wolff segist ekki búast við öðru en Hamilton verði hjá Mercedes allavega út 2020. „Maður verður að skoða þessi mál með opnum huga og skilja að allir ökumenn þrá að keppa fyrr en seinna fyrir Ferrari.
Spurningin er hvort þeir Hamilton hinn enski og Sebastian Vettel hinn þýski hjá Ferrari eigi eftir að hafa sætaskipti. Fyrir hefur legið að Mercedes dreymir um þýskan ökumann sem heimsmeistara á silfurörvunum.