Alfa Romeo hefur staðfest að Kimi Räikkönen muni þrátt fyrir allt aka á fyrstu æfingu morgundagsins í Spa. Í framhaldi af því verður skoðað hvort hann verði líkamlega fær til að klára helgina.
Räikkönen tognaði í kviði í sumarfríi ökumanna og efasemdir hafa verið um hvort hann gæti keppt í belgíska kappakstrinum í Spa um helgina. Varaökumaðurinn Marcus Ericsson var sóttur til Bandaríkjanna til að vera til taks í Spa ef á þyrfti að halda.
Árið 2013 missti Räikkönen af tveimur mótum undir lok vertíðar vegna skurðaðgerðar á baki. Í það skiptið leysti landi hans Heikki Kovalainen hann af.