Verstappen gagnrýnir Honda

Max Verstappen á öryggisveggnum rétt eftir ræsingu í belgíska kappakstrinum.
Max Verstappen á öryggisveggnum rétt eftir ræsingu í belgíska kappakstrinum. AFP

Max Verstappen hjá Red Bull segir að misjöfn stört sín í mótum vera eitthvað sem vélarbirgir liðsins, Honda, verði að leysa.

Verstappen tapaði nokkrum sætum á fyrstu metrum kappakstursins í Spa síðastliðinn sunnudag, áður en hann svo rakst á bíl Kimi Räikkönen hjá Alfa-Romeo í fyrstu beygju og féll úr leik. 

Fjöðrunin skemmdist og þótt hann reyndi að halda áfram þá flaug hann út úr Rauðavatnsbeygjunni og hafnaði á öryggisvegg. Var það í fyrsta sinn frá í ungverska kappakstrinum í fyrra að hann lýkur ekki keppni.

Verstappen hefur átt nokkrar mislukkaðar ræsingar á vertíðinni. Segir hann rót vandans liggja hjá Honda og hvetur japanska vélarsmiðinn til að finna lausn á þessum vanda.

Verstappen segir að undanfarin tvö ár hafi bílar Red Bull verið þeir næst snörpustu í ræsingu móta. Oftar en ekki hefði hann spólað af stað og verið óstöðugur í upptakinu. Segir hann Honda vera að skoða málið en tíma geti tekið að finna lausn á vandanum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka