Charles Leclerc á ferrari var í þessu að vinna ráspólinn í Monza en þeirri keppni lauk með undarlegum hætti. Áhorfendur báru spjöld þar sem á stóð „Kóngur Karl í Monza“ og var það við hæfi miðað við frammistöðu ökumannsins unga.
Í öðru sæti varð Lewis Hamilton á Mercedes, í þriðja liðsfélagi hans Valtteri Bottas og Sebastian Vettel á Ferrari hefur keppni á morgun af fjórða rásstað. Á þriðju rásröð, í fimmta og sjötta sæti, verða Daniel Ricciardo og Nico Hülkenberg á Renault.
Á fjórðu rásröð verða Carlos Sainz á McLaren og Alexander Albon á Red Bull og á fimmtu rásröð leggja af stað þeir Lance Stroll á Racing Point og Kimi Räikköen á Alfa Romeo. Þátttöku hans lauk fljótt í lokalotunni er hann flaug út úr lokabeygjunni og grófst inn í öryggisvegg.Er þetta í fyrsta sinn á árinu sem Stroll kemst í hóp tíu fremstu á árinu.
Allir vildu í kjölsogið
Í síðustu tímatilrauninni ætluðu allir ökumenn að reyna bæta stöðu sína enn frekar með því að þiggja tog frá næsta bíl á undan; sigla í kjölsogi þeirra. Fljótt urðu tilraunir þessar afar fálmkenndar því ennginn vildi vera fremstur. Siluðust bílarnir því eftir brautinni og sekúndunum fækkaði jafnhart á klukkunni. Gauf ökumanna kom þeim í koll því flaggið til marks um lok tímatökunnar féll rétt fyrir framan nefið á þeim nokkrum metrum áður en þeir komu að endamarkslínunni. Þar með glötuðu þeir allir tækifæri til að setja nýjan tíma.
Max Verstappen á Red Bull, Pierre Gasly á Toro Rosso og Lando Norris á McLaren hófu allir tímatökuna með það á bakinu að verða færast niður í öftustu sæti rásmarksins, óháð frammistöðu í tímatökunni, vegna vélarskipta.
Síðastlinn sunnudag vann Leclerc sinn fyrsta sigur í formúlu-1 í Spa Francorchamps í Belgíu og á heimavelli Ferrari stefnir hann eflaust á annan sigur. Þá er ráspóllinn í dag hans fjórði á árinu og jafnframt á ferlinum.