Ferrari mætir til leiks í Singapúr kappakstrinum með nýja trjónu á keppnisbílum sínum.
Eftir góða sigra í síðustu tveimur mótum, hinum hröðu brautum í Spa og Monza, er ekki við öðru búist en að önnur lið muni gera tilkall til efsta þrepsins á verðlaunapallinum í Singapúr á sunnudag, en þar eru brautareiginleikar ólíkir þeim tveimur fyrrnefndu.
Nýja væng Ferrari er ætlað að bæta getu bílsins í hægum beygjum brautarinnar í Singapúr, en slíkar beygjur voru akkilesarhæll keppnisfáks liðsins allt árið í fyrra. Með útfærslu þess þykir sem Ferrari hafi sótt í velheppnaðar útfærslur á trjónum bíla bæði McLaren, Alfa Romeo og Mercedes.