Sebastian Vettel á Ferrari ók manna hraðast á næstsíðasta degi reynsluaksturs formúluliðanna í Barcelona. Næstir honum komu Pierre Gasly á Alpha Tauri og Lance Stroll á Racing Point.
Þegar upp var staðið undir kvöld var tími á besta hring Vettels frá því fyrir hádegi sá besti yfir daginn. Hann olli rauðu flaggi í morgun er hann snarsnerist útúr brautinni í fimmtu beygju og hafnaði úti í malargryfju.
Tími Vettels mældist 1:16,841 mínútur eða 0,1 sekúndubroti betri en besti tími æfinganna í þessari viku og þeirri síðustu. Þann tíma setti Robert Kubica á Alfa Romeo í gær.
Vettel var ekki sá eini sem lenti í vandræðum í dag. Vandræði með olíuþrýsting eftir hádegi takmarkaði æfingar Mercedes. Beið Lewis Hamilton í rúman klukkutíma sem tók að komast fyrir bilunina. Olli hann rauðu flaggi líka er hann stoppaði í miðri braut.
Nicholas Latifi hjá Williams setti fjórða besta tíma dagsins og ók fleiri hringi en nokkur annar ökumaður, eða 157.
Lando Norris á McLaren varð fimmti á lista yfir hröðustu hringi dagsins og Max Verstappen sjötti en hann vék eftir hádegi fyrir liðsfélaga sínum Alexander Albon.
Verstappen olli rauðu flaggi í morgun er hann flaug út í malagryfjuna við fimmtu beygju eins og Vettel og festist þar.
Valtteri Bottas á Mercedes og Esteban Ocon á Renault óku aðeins í morgun en þeir höfnuðu í sjöunda og áttunda sæti listans fyrrnefnda. Kevin Magnussen á Haas varð í níunda sæti og Albon í tíunda.