Bottas á bláþræði

Valtteri Bottas í tímatökunni í Spielberg. Eins og sjá má …
Valtteri Bottas í tímatökunni í Spielberg. Eins og sjá má voru stúkur brautarinnar tómar í dag vegna veiruvarna. AFP

Forysta Valtteri Bottas hjá Mercedes undir lok tímatökunnar í Spielberg í Austurríki rétt í þessu  hékk á bláþræði. Flaug hann út úr brautinni og virtist búinn að tapa toppsætinu vegna mikillar siglingar Lewis Hamilton, en heimsmeistarinn gerði einnig mistök á logahringnum og missti því af gullnu tækifæri til að vinna fyrsta ráspól ársins.

Fyrir utan einvígi Mercedesmanna um ráspólinn verður tímatökunnar sennilega frekar minnst fyrir afhroð Ferrari. Strax í fyrstu lotu var á brattann að sækja fyrir þá Charles Leclerc og Sebastian Vettel. Vettel hékk naumlega með í keppninni en féll úr leik í annarri aksturslotu. Leclerc var litlu framar og „skreið“ inn í lokalotuna, hafnaði í sjöunda sæti og var rúmlega sekúndu lengur með hringinn en Bottas. 

Bottas réði annars lögum og lofum í tímatökunni og Hamilton var ekki eins uppfullur af öryggistilfinningu og á æfingunum í morgun og í gær, en í þeim öllum ók hann allra manna hraðast. Svo jafnt var þó einvígi þeirra um ráspólinn, að einungis munaði 12 þúsundustu úr sekúndu á þeim að lokum.

Max Verstappen á Red Bull varð þriðji og í sætum fjögur til tíu - í þessari röð urðu Lando Norris á McLaren, Alexander Albon á Red Bull, Sergio Perez á Racing Point, Leclerc, Carlos Sainz á McLaren, Lance Stroll á Racing Point og Daniel Ricciardo á Renault. 

Lewis Hamilton (t.h.) óskar Valtteri Bottas til hamingju með ráspólinn …
Lewis Hamilton (t.h.) óskar Valtteri Bottas til hamingju með ráspólinn í Spielberg. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert