Lewis Hamilton og Valtteri Bottas hjá Mercedes háðu hörku klukkustundar rimmu um ráspól portúgalska kappakstursins en tímatökunni var að ljúka.
Ráspóllinn er sá níundi á árinu hjá Hamilton en sjaldan hefur hann þurft að hafa jafn mikið fyrir honum og nú. Skiptust þeir Bottas á um að verma efsta sætið í hverri aksturslotu. Varð finnska ökumanninum ekki að þeirri ósk sinni að hampa ráspólnum eftir að hafa ekið hraðast á æfingum gærdagsins og í morgun.
Þriðja besta tímanum náði Max Verstappen á Red Bull en hann komst stundum upp á milli ökumanna Mercedes meðan á sex aksturslotum tímatökunnar stóð.
Það dróst um hálfa klukkustund að koma æfingunni í gang eftir að í ljós kom að ristargrind á niðurfalli var laus og þarfnaðist viðgerðar til að valda ekki hættu.
Fyrir utan þriggja þeirra fyrstu varð röð ökumanna frá fjórða sæti til þess tíunda sem hér segir: Charles Leclerc á Ferrari, Sergio Perez á Racing Point, Alex Albon á Red Bull, Carlos Sainz á McLaren, Lando Norris á McLaren, Pierre Gasly á AlphaTauri og Daniel Ricciardo á Renault.