Lewis Hamilton á Mercedes var í þessu að vinna keppnina um ráspólinn í Imola en þar fer annað mót ársins í formúlu-1 fram á morgun. Blönduðu fimm ökumenn sér í keppnina sem var sviptingasöm.
Í öðru og þriðja sæti urðu liðsfélagarnir Sergio Perez og Max Verstappen hjá Red Bull en það varð ekki fyrr en í allra síðustu tilraun að Perez hafði betur. Hafði Verstappen virst maðurinn sem aðrir þyrftu að leggja að velli ætluðu þeir sér pólinn. Það sýnir hvað keppnin um pólinn var hörð, að bilið milli Hamiltons og Perezar var aðeins 35 þúsundustu úr sekúndu.
Sá ökumaður sem mest kom á óvart var Lando Norris á McLaren. Var hann þaulsetinn í efsta sæti allt þar til Hamilton mjakaði sér fram úr honum sem svaraði 30 þúsundustu úr sekúndu á lokamínútunni. Reyndar fór svo að sá tími var strikaður út þar sem Norris hafði farið full frjálslega gegnum beygjur - eða út fyrir þær öllu heldur.
Fyrir utan þrjá fyrstu menn munu sæti fjögur til tíu á rásmarkinu á morgun skipast svo - í réttri röð - Pierre Gasly á AlphaTauri, Daniel Ricciardo á McLaren, Lando Norris á McLaren, Valtteri Bottas á Mercedes sem varð 0,487 sekúndum lengur með hringinn, Charles Leclerc á Ferrari, Esteban Ocon á Alpine og Lance Stroll á Aston Martin.