Hollendingurinn Max Verstappen byrjar á ráspól í Formúlu 1 kappakstrinum í Japan í fyrramálið.
Verstappen náði besta tímanum í tímatökunni snemma í morgun en á tímabili leit út fyrir að hann myndi fá refsingu vegna atviks á milli hans og Lando Norris sem hefði þá fært hann aftar í röðina. Verstappen fékk þó bara aðvörun svo hann heldur sæti sínu á ráspólnum.
Charles Leclerc og Carlos Sainz, ökumenn Ferrari, munu ræsa fyrir aftan Verstappen og Sergio Pérez, liðsfélagi Verstappen, ræsir fjórði. Leclerc er annar í keppninni um heimsmeistaratitilinn.
Lewis Hamilton náði 6. besta tímanum á Mercedes bíl sínum en McLaren-ökumennirnir Lando Norris og Daniel Ricciardo voru í vandræðum og ræsa 10. og 11.
Til að tryggja sér heimsmeistaratitilinn í fyrramálið þarf Verstappen að ná 8 stigum meira en Leclerc og 6 stigum meira en Pérez. Fari það svo að hann vinni kappaksturinn og keyri hraðasta hringinn, er hann orðinn heimsmeistari óháð því hvað keppinautarnir gera.