Frakkinn Pierre Gasly mun aka fyrir Alpine-liðið í Formúlu 1 frá og með næsta tímabili. Mun hann fylla skarð fyrrverandi heimsmeistarans Fernando Alonso sem yfirgaf liðið fyrir Aston Martin.
Gasly hefur gert það gott fyrir Alpha Tauri liðið undanfarin ár auk þess að aka fyrir Red Bull í smá tíma. Hann mun nú róa á önnur mið og ganga til liðs við Alpine.
Upphaflega vildi Alpine fá Ástralann Oscar Piastri til að leysa Alonso af hólmi en Piastri valdi að fara frekar til McLaren. Hann hafði áður verið vara ökumaður Alpine en hann vann Formúlu 2 árið 2021.
Til að leysa Gasly af hólmi hefur Alpha Tauri fengið annan fyrrverandi Formúlu 2 meistara, Hollendinginn Nyck de Vries. Hann vann Formúlu 2 árið 2019 og fær nú sitt fyrsta fasta sæti í Formúlu 1 en hann hefur verið varamaður fyrir Williams í ár.