Heimsmeistarinn vann í Ástralíu

Max Verstappen reyndist hlutskarpastur í Ástralíu.
Max Verstappen reyndist hlutskarpastur í Ástralíu. AFP/Martin Keep

Hollendingurinn Max Verstappen hjá Red Bull hrósaði sigri í kappakstrinum í Melbourne í Ástralíu í Formúlu 1 í dag.

Verstappen, sem er ríkjandi heimsmeistari í Formúlu 1, skákaði Lewis Hamilton hjá Mercedes og Fernando Alonso hjá Aston Martin í æsispennandi en nokkuð umdeildum kappakstri.

Í kjölfar áreksturs var öryggisbíll sendur út á keppnisbrautina þegar aðeins tveir hringir voru eftir.

Metið var sem svo að Carlos Sainz hjá Ferrari hafi verið valdur að árekstrinum þegar bifreið hans fór utan í bifreið Alonso og fékk hann fyrir vikið fimm sekúndna refsingu. Með því færðist Sainz úr fjórða sæti niður í það tólfta.

Bifreið Alonso hringsnerist vegna árekstursins og missti hann stöðu sína um stund en gerði afar vel í að vinna sig upp að nýju og ná þriðja sætinu.

Er Sainz ræddi við blaðamenn eftir keppnina var hann hundóánægður með refsinguna sem hann hlaut og taldi hana allt of harkalega.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert