Albert og Mikael í liði umferðarinnar

Albert Guðmundsson.
Albert Guðmundsson. Ljósmynd/Alex Nicodim

Knattspyrnumennirnir Albert Guðmundsson og Mikael Egill Ellertsson voru báðir valdir í lið 34. umferðar í ítölsku B-deildinni eftir góða frammistöðu með liðum sínum um síðustu helgi.

Albert skoraði sigurmarkið í 1:0-sigri Genoa á Cittadella.

Hann hefur verið í algjöru lykilhlutverki hjá liðinu, sem stefnir hraðbyri upp í A-deildina að nýju. Albert hefur skorað níu mörk og lagt upp fimm til viðbótar í 32 deildarleikjum á tímabilinu.

Mikael Egill skoraði svo eitt marka Venezia í 4:1-sigri á Ternana.

Hann hefur sömuleiðis verið í stóru hlutverki hjá Feneyjaliðinu eftir að hann kom að láni frá Spezia í janúar síðastliðnum.

Hefur Mikael spilað tólf leiki, flesta þeirra í byrjunarliði, og var markið um síðustu helgi hans fyrsta fyrir liðið.

Lið 34. umferðar í ítölsku B-deildinni.
Lið 34. umferðar í ítölsku B-deildinni. Ljósmynd/Lega B
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert