Charles Leclerc á Ferrari gerði sér lítið fyrir og fagnaði sigri í tímatökunni fyrir Aserbaídsjankappaksturinn í Formúlu 1 í dag. Sá hann við heimsmeistaranum Max Verstappen á Red Bull, sem endaði í öðru sæti.
Liðsfélagi Verstappens, Sergio Pérez, varð þriðji og Carlos Sainz á Ferrari varð fjórði. Þar á eftir kom fyrrverandi heimsmeistarinn Lewis Hamilton á Mercedes og annar fyrrverandi heimsmeistari í Fernando Alonso varð sjötti.
Á morgun fer fram svokölluð sprettkeppni, sem er styttri útgáfa af kappakstri. Þar eru átta stig í boði fyrir sigurvegarann, sjö fyrir þann sem endar í öðru sæti, sex fyrir þann sem verður þriðji og svo koll af kolli.
Á sunnudag er svo hefðbundinn kappakstur, þar sem 25 stig fást fyrir að hafna í efsta sæti.