Mexíkóinn Sergio Pérez á Red Bull fagnaði sigri í sprettkeppninni fyrir Aserbaídsjankappaksturinn í Formúlu 1 í Bakú í dag.
Sprettkeppnin er styttri kappakstur, þar sem færri stig fást fyrir sigurinn, en Pérez fékk átta stig fyrir að koma fyrstur í mark í dag.
Charles Leclerc á Ferrari, sem byrjaði fremstur á ráðsröðinni í dag, mátti láta sér nægja annað sætið og fékk fyrir það sjö stig. Heimsmeistarinn Max Verstappen varð þriðji og fékk sex stig.
George Russsell á Mercedes varð fjórði, Carlos Sainz á Ferrari fimmti, Fernando Alonso á Aston Martin sjötti, Lewis Hamilton á Mercedes sjöundi og loks Lance Stroll á Aston Martin áttundi, en þeir fengu allir stig fyrir sprettkeppnina.
Hefðbundinn kappakstur fer fram í Bakú á morgun og verður Leclerc þá á ráspól, þar sem hann fagnaði sigri í tímatökunni í gær.