Ökuþórinn Lewis Hamilton á nú í viðræðum við forráðamenn Ferrari í Formúlu 1 um að ganga til liðs við félagið eftir yfirstandi keppnistímabil.
Það er Sportsmail sem greinir frá þessu en Hamilton, sem er 38 ára gamall, hefur ekið fyrir Mercedes-ökuliðið frá árinu 2013. Hann hóf feril sinn í Formúlu 1 hjá McLaren árið 2007.
Í frétt Sportsmail kemur meðal annars fram að forráðamenn Ferrari séu tilbúnir að borga honum 40 milljónir dollara í árslaun en það samsvarar tæplega 5,6 milljörðum íslenskra króna.
Hamilton verður samningslaus að tímabili loknu en hann er sigursælasti ökumaður í Formúlu 1 frá upphafi ásamt Michael Schumacher.
Hamilton hefur lengi dreymt um áttunda heimsmeistaratitilinn og að verða þar með sá sigursælasti í greininni frá upphafi og er það stór ástæða þess að hann er sagður íhuga það að skipta yfir til Ferrari.
Takist honum að verða heimsmeistari með Ferrari yrði hann einnig fyrsti ökumaðurinn í sögu Formúlu 1 til þess að verða meistari með þremur mismunandi liðum.