Ekkert fær stöðvað Verstappen

Max Verstappen fagnar á verðlaunapalli eftir kappakstur dagsins.
Max Verstappen fagnar á verðlaunapalli eftir kappakstur dagsins. AFP/Clive Mason

Max Verstappen, ökuþór Red Bull Racing, vann sinn sjötta kappakstur á tímabilinu þegar hann vann Kanada-kappaksturinn með yfirburðum.

Verstappen, sem ræsti af ráspól, leiddi frá fyrstu sekúndu til þeirrar síðustu í tíðindalitlum kappakstri í dag.

Fernando Alonso, sem keyrir fyrir Aston Martin, kom annar í mark tæpum tíu sekúndum á eftir Verstappen. Sjöfaldi heimsmeistarinn Lewis Hamilton, ökuþór Mercedes, kom þriðji í mark. Þá komu Ferrari ökuþórarnir Charles Leclerc og Carlos Sains þar á eftir í fjórða og fimmta sæti.

Skemst er frá því að segja að Red Bull Racing sé yfirburðalið á þessu tímabili en liðsmenn þess hafa unnið allar átta keppnir tímabilsins. Þetta var hundraðasti sigur Red Bull Racing frá stofnun liðsins.

Verstappen leiðir í keppni ökuþóra með 195 stig, liðsfélagi hans Sergi Perez er annar með 126 stig og Fernando Alonso er þriðji með 117 stig.

Þá er Red Bull Racing efst í keppni bílasmiða með 321 stig, Mercedes er í öðru sæti með 167 stig og Aston Martin er í þriðja sæti með 154 stig.

Næsta keppni fer fram í Austurríki dagana 30. júní - 2. júlí.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert