Tólfti ráspóllinn á tímabilinu

Max Verstappen byrjar fremstur á morgun.
Max Verstappen byrjar fremstur á morgun. AFP

Hollenski ökuþórinn Max Verstappen byrjar fremstur á morgun í Formúlu 1 kappakstrinum í Abú Dabí. Þetta er tólfti ráspóll hans á tímabilinu og sá fjórði í röð.

Keppnin um helgina snýst þó meira um liðin Mercedes og Ferrari sem keppa um annað sætið í keppni bílasmiða. Fjögur stig skilja liðin að og því mikil pressa á ökuþórum liðanna í dag. 

Spænski ökuþórinn Carlos Sainz, sem keyrir fyrir Ferrari, komst þó ekki úr fyrsta hluta tímatökunnar í dag og byrjar því sextándi á morgun. Sainz segist hafa verið óheppinn með umferðina í tímatökunum og hafi farið of seint út á brautina. 

Lewis Hamilton datt úr leik í öðrum hluta tímatökunnar og byrjar ellefti á morgun og því öll augun á liðsfélaga hans hjá Mercedes, George Russell, sem reynir að halda aftur af Charles Leclerc sem byrjar annar á morgun á eftir Max Verstappen.

Kappaksturinn hefst klukkan 13.00 og er sá síðasti á tímabilinu en Formúla 1 hefst svo aftur í mars á næsta ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert