Verður gott þegar þetta er búið

Liðsstjóri Red Bull í Formúlu 1, Christian Horner, er sakaður …
Liðsstjóri Red Bull í Formúlu 1, Christian Horner, er sakaður um óviðeigandi hegðun í garð starfsmanns. AFP

Christian Horner, liðsstjóri keppnisliðs Red Bull í Formúlu 1, er sakaður um að hafa sýnt af sér óviðeigandi hegðun í garð samstarfskonu sinnar. Málið liggur nú hjá Red Bull GmbH, móðurfyrirtæki drykkjarframleiðandans.

Max Verstappen, þrefaldur heimsmeistari í Formúlu 1 og ökuþór hjá Red Bull segir í viðtali við Sky Sports að það verði gott þegar þetta verður allt búið.

Christian Horner hefur neitað þessum ásökunum og segist ætla að hjálpa til við að leysa þetta mál, hann hefur nú þegar verið tekinn í viðtal af sérfræðingi í vinnustaðamálum en ekki tókst að leysa málið þar.

Horner var viðstaddur þegar Red Bull kynnti nýjan bíl til leiks í síðustu viku og tók Horner til máls eftir viðburðinn þar sem hann neitaði ásökunum, í sínu fyrsta viðtali eftir að ásakanirnar komu upp á borðið.

Max Verstappen vill þó lítið tjá sig um málið. „Ég held að það sé betra að ég hugsi bara um að standa mig vel, því það er vinnan mín. Það verður þó gott fyrir alla þegar það er búið að leysa þetta mál. Það er það eina sem ég get sagt. Það eru allir að hugsa um næsta tímabil sem byrjar í næstu viku,“ sagði Verstappen við Sky Sports.

Horner hefur verið liðsstjóri Red Bull síðan þeir hófu leik í Formúlunni árið 2005 og hefur síðan þá unnið sex titla í keppni bílasmiða og hafa sjö ökuþórar orðið heimsmeistarar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert