Liðstjóri Mercedes liðsins í Formúlu 1, Toto Wolff, útilokar ekki að liðið muni ræða við Max Verstappen um sæti í öðrum bíl liðsins. Lewis Hamilton gengur til liðs við Ferrari eftir yfirstandandi keppnistímabil.
Mikil ólga ríkir innan Red Bull-liðsins í kjölfar ásakana um óviðeigandi hegðun liðstjórans Christian Horner í garð starfsmanns kappakstursliðsins. Adrian Newey, bílahönnuður yfirgaf liðið á dögunum og gekk til liðs við Ferrari.
Wolff neitaði því að Mercedes ætti bókaðan fund við umboðsmenn Verstappen eftir kappakstur helgarinnar í Miami en útilokaði ekki að ræða við aðra ökumenn.
„Við viljum taka góðan tíma í að sjá hvað gerist, hvað Max er að hugsa, og á sama tíma fylgjast með öðrum ökumönnum. Carlos Sainz (Ferrari innsk.) var mjög góður í Miami og við munum vega og meta alla möguleika“.
Verstappen hefur talað opinskátt um ósk sína að vera í hraðasta bílnum og í réttu umhverfi. Ný reglugerð tekur gildi fyrir tímabilið 2026 og þá gæti goggunarröðin breyst í Formúlunni en Red Bull er sem stendur með nokkra yfirburði yfir keppinauta sína.