Leclerc sigurvegari í Mónakó

Charles Leclerc fagnar langþráðum sigri á heimavelli
Charles Leclerc fagnar langþráðum sigri á heimavelli AFP/ANDREJ ISAKOVIC

Charles Leclerc kom fyrstur í mark í Mónakó kappakstrinum í dag á undan Oscar Piastri á McLaren og  liðsfélaga sínum í Ferrari, Carlos Sainz. Leclerc er fæddur og uppalinn í Mónakó en þetta var hans fyrsti sigur á heimavelli.

Knattspyrnumaðurinn Kylian Mbappe veifaði köflótta flagginu þegar Leclerc kom í mark en sigurinn kemur Mónakómanninum nær heimsmeistaranum Max Verstappen í baráttunni um heimsmeistaratitilinn en Hollendingurinn náði einungis sjötta sæti í dag.

Kylian Mbappe fékk að veifa köflótta flagginu
Kylian Mbappe fékk að veifa köflótta flagginu AFP/ANDREJ ISAKOVIC

Kappaksturinn hófst ekki gæfulega en alvarlegur árekstur Sergio Perez og Haas ökumannana Kevin Magnussen og Niko Hulkenberg stöðvaði kappaksturinn í rúman hálftíma áður en fyrsti hringur kláraðist. 

Eftir að ræst var að nýju var engin spurning um niðurstöðuna, erfitt er að taka fram úr á þröngum strætum Mónakó og Leclerc sigraði að lokum með átta sekúndur rúmar í Piastri í öðru sætinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert