Ástralski ökuþórinn Oscar Piastri, sem keyrir fyrir McLaren, vann Formúlu 1 kappaksturinn í Aserbaísjan í dag. Þetta er annar sigur hans á tímabilinu og á ferlinum.
Hinn 23 ára gamli Piastri ræsti annar á eftir Charles Leclerc, sem keyrir fyrir Ferrari.
Ástralinn tók fram úr Leclerc með glæsilegum akstri á 20. hring og ók síðan af miklu öryggi og sigraði örugglega. Leclerc kom á eftir honum í öðru sæti.
Allt stefndi í að Sergio Perez, ökumaður Red Bull, myndi taka þriðja sætið þar til á næst síðasta hring. Þá lenti Carlos Sainz, ökuþór Ferrari, og Perez í árekstri sem leiddi til þess að George Russell, ökumaður Mercedes, tók þriðja sætið.
Heimsmeistarinn Max Verstappen átti ekki frábæran dag en hann ræsti sjötti og endaði í fimmta sæti.